Kæru landsmenn, hold your horses! Nú um helgina munu Rán Flygenring og Hjörleifur Hjartarson fagna því að bók þeirra HESTAR er komin sjóðheit úr prentvélinni. Af því tilefni verða höfundarnir í Ásmundarsal um helgina þar sem þau: leiða saman hesta sína, setja sig á háan hest, sleppa fram af sér beislinu og árita bækur (að sjálfsögðu með hanska og í hæfilegri fjarlægð og að því gefnu að þau bæði séu við hestaheilsu). Teikningarnar í bókinni verða til sýnis og sölu ásamt sérstökum hestalitaveggspjöldum. Bókin verður á tilboðsverði og fylgir hestalitabók öllum seldum bókum um helgina.
Rán og Hjörleifur verða á staðnum milli kl. 13:00 og 16:00 laugardag og sunnudag. Hjörleifur les upp úr bókinni kl. 14:00 og 15:00, báða dagana, og verður upplestri og spjalli streymt beint á Facebook-síðu Angústúru og instagram-síðu Ásmundarsalar.
Munið: Það er óþarfi að beygja skeifu og ríða skæting þótt við gefum okkur hvorki lausan tauminn né hesthúsum kökum. Aðalatriðið er að standa í ístaðið og hlaupa undir bagga ef einhverjir heltast úr lestinni.
Aðgangur ókeypis. Fjölda- og fjarlægðartakmarkanir virtar. Allir velkomnir.